Innlent

Krefjst 26 milljóna í skaðabætur

Frá mótmælunum í sumar.
Frá mótmælunum í sumar. MYND/Vilhelm Gunnarsson

Alcoa krefst 26 milljóna króna í bætur af 12 mótmælendum sem eru ákærðir fyrir að hafa farið í óleyfi inn á virkjanasvæðið við Kárahnjúka. Fólkið er ákært fyrir að hafa brotið hegningarlög með því að leggjast á vegi og stöðva umferð og vinnu á svæðinu. Aðalmeðferð hófst í málinu í dag.

Alls er um þrjú tilvik að ræða, tvö á vinnusvæði Suðurverks við Desjarárstíflu og eitt við Kárahnjúkastíflu. Brotin geta varðað árs fangelsi en fólkið neitar sök.

Haukur Ingvarsson, einn mótmælenda, segist hafa verið að mótmæla byggingu Kárahnjúkavirkjunar og álversins í Reyðarfirði. Hann telji álverið ólöglegt. Það hafi ekki lögformlegt umhverfismat og því ætti það ekki að hafa byggingarleyfi. Sú staðreynd sé hins vegar mistök hjá dómstólum sem hann geti ekkert gert að. Hann telji það hins vegar skyldu sína sem borgara að bregðast við því. Samkvæmt þessu haldi hann fram sakleysi sínu í málinu.

Þá krefst Alcoa þess að fá 25 og hálfa milljón króna í bætur vegna vinnutruflunar í sumar. Það er eina skaðabótakrafan sem er komin fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×