Innlent

Læknar samþykkja ekki að fólk velji kyn barna

Sjö danskar konur fóru til Kýpur og völdu kyn á ófædd börn sín. Jón G. Snædal, forseti Alþjóðasamtaka lækna, segir að íslenskir læknar myndu aldrei samþykkja það að velja annað kynið fram yfir hitt.

Þú ert 100% öruggur um að fá barn af því kyni sem þú velur - svo hljóðar loforð breska kvensjúkdómalæknisins Pauls Rainsburys sem rekur læknastofu á tyrkneska hluta Kýpur - því það er jú ólöglegt að velja kyn ófædds barns í Evrópusambandinu og hér á Íslandi sömuleiðis. Tæknin er hins vegar til og samkvæmt heimasíðu breska læknisins - sem er á tólf tungumálum þar á meðal á dönsku - er þetta í raun glasafrjóvgun. Eggið er frjóvgað utan legs og tveimur dögum síðar er ein fruma skoðuð og á litningunum má sjá hvors kyns er.

Jón G. Snædal er forseti Alþjóðasamtaka lækna sem er einmitt ætlað að styrkja siðfræðilegan grundvöll lækna. Hann segir samtökin á móti allri kynjamismunun í læknavísindunum, meðal annars við fóstureyðingar. Hann telur að sú íhlutun sem leyfð er, á borð við glasafrjóvgun, fóstureyðingar og getnaðarvarnir, siðferðislega öðrum meiði en það að leyfa fólki að velja kyn barna sinna. Fyrst og fremst segist hann óttast þær hugmyndir sem liggja að baki því að taka eitt kynið fram yfir annað. Miklu fremur en að ójafnvægi yrði á milli kynja í heiminum. Þessar hugmyndir valdi því að læknar gætu aldrei samþykkt að velja eitt kynið fram yfir hitt.

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×