Innlent

Kynbundinn launamunur nánast ekkert minnkað á 10 árum

Kynbundinn launamunur hefur sama og ekkert minnkað á síðustu tíu árum, samkvæmt nýrri rannsókn. Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra lýsir yfir vonbrigðum með þessa niðurstöðu og kallar eftir samvinnu við aðila vinnumarkaðarins.

Það var Capacent sem gerði þessa rannsókn fyrir Félagsmálaráðuneytið. Þegar heildarlaun eru skoðuð má sjá að konur eru einungis með tvo þriðju af launum karla. Og þegar allar breytur eru hreinsaðar í burtu sýnir rannsóknin að konur eru með 84,3% af launum karla - sem eingöngu má rekja til kyns. Fyrir tíu árum voru konur með 84% prósent af launum karla.

Nú eru 45 ár ár síðan sett voru lög um jöfn laun karla og kvenna og átti þá að eyða launamun á sjö árum. Lengi hefur verið talað um að viðhorfsbreytingu þyrfti í samfélaginu en þessi rannsókn gefur vísbendingu um að hún hafi þegar orðið. Æ fleiri konur segja yfirmenn hvetja þær til að koma með eigin hugmyndir og vinna að sjálfstæðum verkefnum. Stjórnandi í einkafyrirtæki segir ungar konur að sumu leyti búnar að tileinka sér strákaviðhorf til heimsins og þykir jákvætt. Og viðhorf til fjölskylduábyrgðar virðast sömuleiðis hafa breyst - eins og karlstjórnandi sagði í rannsókninni - þá kippir sér enginn upp við það lengur þó að feður séu heima vegna veikinda barna.

Í ljósi þessara upplýsinga hyggst félagsmálaráðherra kalla saman aðila vinnumarkaðarins og í samráði við þá leita nýrra leiða til að draga úr kynbundnum launamun. Stjórnvöld geti það ekki ein og sér.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×