Innlent

Hvalstöðin hefur ekki leyfi til matvælavinnslu

Hvalstöðin í Hvalfirði hefur ekki starfsleyfi til matvælavinnslu en Landbúnaðarstofnun hefur ekki viljað veita stöðinni slíkt starfsleyfi. Stjórnarformaður Hvals hf. segir hins vegar öll leyfi í lagi. Hvalur 9 er nú að veiðum og hefur aðeins um sólarhring eftir að hvalur veiðist til að koma honum í land.

Halldór Runólfsson yfirdýralæknir segir að Hvalur hf. hafi ekki leyfi til matvælavinnslu í Hvalstöðinni. Fyrirtækið hafi því ekki starfsleyfi til að taka á móti hvölum og vinna kjötið í mat. Ákveðin lagaóvissa sé um hvaða stofnun eigi að gefa út slíkt starfsleyfi. Hvalur hafi hins vegar óskaði eftir því að Landbúnaðarstofnun tæki Hvalstöðina út í haust og fengið svör um að stöðin væri ekki nægilega hæf í þáverandi ástandi til að hún fengi starfsleyfi til matvælavinnslu. Halldór segir stofnunni ekki kunnugt um að neitt hafi breyst síðan.

Fréttavefurinn Skessuhorn.is segir hugmyndir hafa verið uppi um að koma með þá hvali sem veiðast inn í Hvalstöðina og skera þá þar en flytja kjötið til vinnslu annars staðar. Halldór telur að Hvalur hf. geti ekki skorið kjötið í Hvalfirði og flutt það svo annað til vinnslu, til þess þurfi félagið starfsleyfi.

Það lítur því út fyrir að Hvalur hafi ekki leyfi til að vinna þær langreyðar sem fyrirtækinu hefur verið gefið leyfi til að veiða. Hvalur 9 er nú að veiðum á miðunum og eftir að hvalur er veiddur hefur hann um sólarhring til að koma kjötinu í land vegna þess hve skamman tíma tekur fyrir kjötið að úldna.

Kristján Loftsson, stjórnarformaður Hvals hf., sagði í samtali við NFS fyrir hádegi að Hvalur hefði bæði starfsleyfi og vinnsluleyfi, þetta væri því rangt. Hvalur 9 hefði ekki verið sendur til veiða ef leyfin væru ekki í lagi. Hann vildi þó ekkert segja um hvenær leyfin hefðu verið gefin út eða hver hefði gert það.

Halldór segir sér ekki kunnugt um að nein önnur stofnun hafi veitt Hvalstöðinni í Hvalfirði slíkt starfsleyfi.

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×