Innlent

15 daga fangelsi fyrir að leika lögreglumann

MYND/Róbert Reynisson

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi fyrir helgi 19 ára karlmann í 15 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa tekið sér opinbert vald sem hann hafði ekki. Maðurinn mun, ásamt jafnaldra sínum, hafa ekið bíl um götur Kópavogs og Hafnarfjarðar með blá ljós og gefið um leið frá sér hljómerki. Þeir hafi stöðvað 3 ökumenn og leikið lögreglumenn.

Í fyrsta tilvikinu, að kvöldi sunnudagsins 25. september, stöðvuðu þeir konu í bifreið og sögðust vera frá fíkniefnalögreglunni. Þeir kröfðu konuna um ökuskírteini og bentu henni á að afturljós hennar væri brotið, sem varðaði sektum. Létu þeir konuna blása í rakamæli sem þeir sögðu vera öndunarsýnamæli sem mældi áfengismagn í útöndunarlofti.

Skömmu síðar, sömu nótt, stöðvuðu þeir aðra konu með sömu sögu. Bentu henni á að hún hefði ekki gefið stefnuljós og kröfðu hana um ökuskírteini. Spurðu hana hvort hún væri ölvuð og létu hana blása í sama rakamæli.

Stuttu síðar stöðvuðu ökumann, sögðu honum að hann hefði ekið of hratt og veittum honum tiltal.

Í dómsorði segir að þáttur vinarins hafi verið klofinn í málinu og var lokið með viðurlagaákvörðun. Hinn játaði brot sitt og var krafist vægustu refsingar og að hún yrði skilorðsbundinn. Fram kemur í dómi að maðurinn hefur fjórum sinnum áður hlotið refsingu fyrir hegningarlagabrot, brot gegn ávana- og fíkniefnalöggjöf og fyrir brot gegn umferðalögum.

Var hann síðast dæmdur 11. apríl 2006 og hlaut sekt og var sviptur ökuleyfi í 1 og hálft ár. Refsing nú var ákveðin sem hegningarauki við síðasta dóm og þótti hæfilega ákveðin fangelsi skilorðsbundið í 15 mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×