Innlent

Samfylkingin vill fá nýtt fangelsi nær höfuðborgarsvæðinu

Stjórnarandstaðan segir skort á fjármagni til byggingar á nýju fangelsi stóra vandann er lýtur að föngum. Varaformaður Samfylkingarinnar vill fá nýtt fangelsi nær höfuðborgarsvæðinu og nefnir í því samhengi yfirgefið svæði Varnarliðsins.

Tíu fangar í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg ætla í mótmælasvelti á föstudag og hafa krafist þess að fæði þeirra og aðstaða verði bætt. Í kvöldfréttum okkar í gær kallaði forstöðumaður fangelsa á höfuðborgarsvæðinu eftir almennri lausn í fangelsismálum af hálfu stjórnvalda. Í samtali við fréttastofu í dag, sagði Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, að verið sé að koma til móts við kvartanir fanganna í Hegningarhúsinu eftir því sem unnt er miðað við aðstæður.

Þegar fulltrúar stjórnarandstöðunnar voru inntir eftir afstöðu sinni í málefnum segir varaformaður Samfylkingarinnar, Ágúst Ólafur Ágústsson, að nýtt fangelsi sé forgangsatriði þegar kemur að málefnum fanga. Hann segir þó að dómsmálaráðherra hafi staðið sig vel í ýmsum málum eins og bætta aðstöðu fangelsanna að Kvíabryggju og á Akureyri, en betur megi ef duga skal. Ágúst Ólafur varpar þeirri spurningu fram hvort ekki megi nýta nýlega yfirgefið svæði Varnarliðsins á Miðnesheiði og nýta húsnæðið þar undir fangelsi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×