Enski boltinn

Ætlar að láta hart mæta hörðu

Jens Lehmann ætlar ekki að láta ákáfa sóknarmenn meiða sig og hótar að svara í sömu mynt
Jens Lehmann ætlar ekki að láta ákáfa sóknarmenn meiða sig og hótar að svara í sömu mynt NordicPhotos/GettyImages

Jens Lehmann hefur gefið sóknarmönnum sem gera sig líklega til að valda sér meiðslum skilaboð í kjölfar meiðsla þeirra Petr Cech og Carlo Cudicini hjá Chelsea um helgina. Lehmann segir að úr því að dómarar ætli ekki að vernda markverði fyrir glæfralegum árásum - verði þeir að verja sig sjálfir.

"Ég verð nú að byrja á því að senda markvörðum Chelsea batakveðjur og vona að þeir nái sér sem fyrst. Þeir eru því miður alls ekki fyrstu markverðirnir sem lenda í þessu og þeir Shay Given og Mark Schwarzer hafa þegar lent í meiðslum út af svona löguðu. Knattspyrnan er auðvitað leikur fyrir alvöru karlmenn - en við erum að tala um karlmenn sem eiga fjölskyldur og þurfa að sjá fyrir þeim.

Ef dómararnir ætla ekki að koma mér til varnar í teignum - og ég er markvörður sem fer mikið út í teiginn - verð ég að verja mig sjálfur, það er greinilegt. Ég hef aldrei slasað mótherja og vil ekki breyta því. Ég ber virðingu fyrir mótherjum mínum, en ef menn ætla að fara að vaða svona í mig, verð ég að breyta eitthvað um aðferðir," sagði Lehmann ákveðinn í samtali við Sky í gærkvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×