Innlent

Raflögnum og rafbúnaði víða ábótavant á verkstæðum

Raflögnum og rafbúnaði á íslenskum verkstæðum er víða ábótavant samkvæmt úttekt sem Neytendastofa stóð fyrir. Stofnunin hefur síðastliðið ár látið skoða raflagnir á fimmta hundrað verkstæða víðsvegar um landið, bílaverkstæða, véla- og járnsmíðaverkstæða, trésmíðaverkstæða og rafmagnsverkstæða, með það að markmiði að fá sem gleggsta mynd af ástandinu.

Fram kemur á vef Neytendastofu að gerðar hafi verið athugasemdir við merkingu búnaðar í rafmagnstöflum í nær öllum verkstæðum sem skoðuð voru, eða í 91% tilvika. Þá var gerð athugasemd við frágang töfluskápa í 75% skoðana og tengla í 72% tilvika.

Á vefnum segir einnig að gamall og bilaður rafbúnaður og aðgæsluleysi forráðamanna séu meðal helstu orsaka rafmagnsbruna og því sé afar mikilvægt að rafbúnaður á verkstæðum sé ávallt valinn með tilliti til staðsetningar og notkunar.

Úr sumum ágöllum megi bæta með betri umgengni en í flestum tilvikum þurfi að kalla til löggilta rafverktaka til að fara yfir lagnir og búnað svo að öryggi fólks sé tryggt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×