Innlent

Mótmæla ráðningu hjá Umhverfisstofnun

Kona, sem unnið hefur í sjö ár hjá Umhverfisstofnun, fékk ekki starf fagstjóra hjá stofnuninni heldur karlmaður sem aðeins hafði starfað þar í um þrjár vikur. Forstjóri Umverfisstofnunar vill ekki tjá sig um málið í fjölmiðlum á meðan það er enn óafgreitt.

Umhverfisstofnun hefur ekki náð fram meginmarkmiðum að því er fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðanda. Sama dag og skýrslan kom út fékk forstjóri Umhverfisstofnunar afhentan undirskriftarlista með nöfnum 35 til fjörtíu starfsmanna þar sem þeir mótmæla hvernig staðið var að ráðningu fagstjóra hjá stofnuninni. Tveir sóttu um stöðuna, kona með verkfræðimenntun sem unnið hefur hjá Umhverfisstofnun í sjö ár og karlmaður menntaður líffræðingur sem aðeins hafði unnið hjá stofnuninni í um þrjár vikur. Þrátt fyrir reynslu og menntun konunnar fékk karlmaðurinn starfið en í auglýsingunni var verkfræðimenntun talin æskileg. Davíð Egilsson, forstjóri Umhverfisstofnunar, sagði í samtali við NFS að starfsmannamál væru best leyst innandyra en ekki í fjölmiðlum. Staðan var aðeins auglýst innan stofnunarinnar en ekki opinberlega eins og ber að gera og segist forstjórinn ekki heldur vilja tjá sig um það á meðan málið hafi ekki verið afgreitt að fullu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×