Enski boltinn

Telur að Watford muni halda sér í deildinni

Arsene Wenger
Arsene Wenger NordicPhotos/GettyImages

Arsene Wenger segir sitt lið hafa þurft á öllu sínu að halda í dag þegar það lagði Watford 3-0 í ensku úrvalsdeildinni. Hann segir að þó Watford hafi enn ekki unnið leik í deildinni, hafi það alla burði til að halda sér uppi í vor.

"Watford er kannski neðarlega í töflunni, en þeir gerðu okkur lífið leitt í dag og voru mjög ógnandi í sókninni. Þetta sýnist mér vera lið sem getur vel skorað mörk í hvaða leik sem er og þetta ætti að gefa þeim von," sagði Wenger og hrósaði um leið táningnum Theo Walcott sem var í fyrsta sinn í byrjunarliði Arsenal.

"Theo er mjög ungur, en mér fannst hann standa sig mjög vel. Hann lítur út fyrir að vera leikmaður sem getur gert fína hluti í þessari deild og ég var hrifinn af því hvað hann sýndi mikinn þroska í dag," sagði Wenger og þrætti fyrir að hafa stillt unglingnum upp í byrjunarliðinu af þeirri einu ástæðu að hann væri enskur, en enskum leikmönnum fer sífellt fækkandi í herbúðum Arsenal.

"Theo er góður leikmaður og mér er alveg sama hvaðan góðir leikmenn koma - þeir fá tækfæri í liðinu," sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×