Enski boltinn

Kallar á stolt og ástríðu

Steve McClaren
Steve McClaren NordicPhotos/GettyImages

Steve McClaren vill að leikmenn enska landsliðsins sýni stolt sitt og ástríðu þegar þeir sækja Króata heim í undankeppni EM annað kvöld í leik sem sýndur verður beint á Sýn.

"Það sem einkennir gott lið er það hvernig það bregst við vonbrigðum," sagði McClaren, en enska liðið gerði aðeins markalaust jafntefli við Makedóníu á laugardaginn.

"Ég er að vonast eftir því að mínir menn bregðist jákvætt við vonbrigðunum um helgina og ég óska eftir stolti, ástríðu og góðri skapgerð leikmanna þegar við sækjum Króata heim annað kvöld," sagði McClaren á blaðamannafundi í dag.

Talið er líklegt að Scott Parker frá Newcastle fái jafnvel tækifæri í byrjunarliðinu við hlið Frank Lampard hjá Chelsea sem spilar sinn 50. landsleik á morgun og talið er víst að Englendingar tefli fram fimm manna miðju. Steven Gerrard hjá Liverpool verður í leikbanni á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×