Innlent

Virkjanir hafa mikil áhrif á ferðaþjónustu í Skagafirði

Skagafjarðarvirkjanir koma til með að hafa mikil áhrif á ferðaþjónustu ef af þeim verður, að mati eigenda Ferðaþjónustunnar á Bakkaflöt, en flúðasiglingar fyrirtækisins koma þá til með að leggjast af.

Sveitastjórn Skagafjarðar samþykkti í fyrrakvöld að setja Villinganesvirkjun og Skatastaðarvirkjun inn á aðalskipulag. Ef af virkjunum verður hafa þær mikil áhrif á Skagafjarðarárnar. Klara Jónsdóttir er annar eigenda Ferðaþjónustunnar á Bakkaflöt í Varmahlíð. Á meðal þess sem þau bjóða upp á eru flúðasiglingar á Austari og Vestari Jökulsám sem hún telur að leggja þurfi af ef af framkvæmdum verður.

Klara segir fleiri þúsund manns koma í Skagafjörðinn á hverju ári bara til að sigla og það fólk nýti sér um leið aðra þjónustu á svæðinu. Fólk sé almennt ánægt með siglingarnar enda mikil náttúrufegurð í giljunum.

Fari svo að virkjað verði hefur það mikil áhrif á ferðaþjónustu á svæðinu að mati Klöru og margir aðilar verða af tekjum. Skagfirðingar eiga nú eftir að ræða málin en hún telur að meirihlutinn sé á móti því að virkja þó pólitíkin spili þó sinn þátt.

Klara segist sjálf vera á móti virkjununum enda um mjög fallegt svæði að ræða. Mikilvægt sé að vernda svæðið en það hefur verið vinsælt að fara í gönguferðir um það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×