Enski boltinn

Sló á létta strengi eftir tapið

Paul Jewell gat ekki annað en gert grín að ógæfu sinna manna í dag
Paul Jewell gat ekki annað en gert grín að ógæfu sinna manna í dag NordicPhotos/GettyImages

Paul Jewell og félagar í Wigan hafa ekki haft heppnina með sér í undanförnum leikjum í ensku úrvalsdeildinni og liðið mátti þola mjög súrt tap gegn Blackburn á útivelli í dag, þrátt fyrir að vera ef til vill betra liðið á löngum stundum í leiknum.

Wigan náði forystu í leiknum með marki frá Emile Heskey, en klúðraði vítaspyrnu síðar í leiknum og svo urðu klaufamistök Chris Kirkland til þess að Blackburn náði að stela sigrinum í lokin - en myndbandsupptökur sýndu að Suður-Afríkumaðurinn var líklega rangstæður þegar hann skoraði sigurmarkið.

"Við byrjuðum mjög vel og það hefði verið sannkallaður draumur að vera yfir í hálfleik, en eftir að þeir jöfnuðu jókst þeim sjálfstraustið til muna. Það er bókstaflega allt að falla gegn okkur í augnablikinu - ég skoðaði myndbandið af síðara marki þeirra og þar var augljóst að Benni McCarthy var rangstæður.

Vítaspyrnan hjá Todorov var alls ekki góð og hann hefði líka átt að skora úr frákastinu, en svona er þetta stundum. Kirkland kom líka til mín og bað mig afsökunar á mistökum sínum í markinu, en allir gera mistök.

Við erum ekkert að sökkva okkur í þunglyndi, en við erum orðnir ansi þreyttir á því að vera svona óheppnir. Það er kominn tími til að snúa gæfunni okkur á band og sem betur fer er næsti leikur okkar auðveldur," sagði brandarakarlinn Jewell - en næsti leikur liðsins er við Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×