Innlent

Sala á áfengi og dagvöru eykst milli ára

MYND/GVA

Landsmenn vörðu mun meira til kaupa á dagvöru og áfengi í síðasta mánuði en í sama mánuði í fyrra. Þetta kemur fram í nýjum tölum rannsóknarseturs verslunarinnar. Velta í dagvöruverslun var 8,8 prósentum meiri í ágúst síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra, á föstu verðlagi.

Hækkunin var hins vegar 22,1 prósent á sama tímabili ef miðað er við hlaupandi verðlag. Sala á áfengi jókst verulega á milli ágústmánaða 2005 og 2006, um 27,1 prósent á föstu verðlagi og 28,3 prósent á hlaupandi verðlagi. Skýringarinnar er að sögn rannsóknarsetursins að leita í því að verslunarmannahelgin í ár var tiltölulega seint á ferðinni og verslun vegna hennar lenti að mestu í ágúst en árið áður í júlí. Aukin hlýindi í ágústmánuði frá júlímánuði þar á undan hefur að öllum líkindum einnig haft áhrif á aukna sölu milli mánaða. Þessar miklu hækkanir megi því ekki túlka sem aukna þenslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×