Innlent

Hálslón verður orðið fullt haustið 2007

Mynd/Vilhelm

Byrjað verður að safna vatni í Hálslón í næstu viku. Ráðgert er að lónið verði orðið fullt haustið 2007 en þá eru um fimm ár frá því að vinna hófst við Kárahnjúkavirkjun.

Fyrsta steypuvinnan við Kárahnjúkavirkjun hófst 5. september árið 2002 þegar starfsmenn Malarvinnslunnar hf. á Egilsstöðum steyptu millistöpul undir nýja brú á Jökulsá á Dal. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar, en frágangur við Kárahnjúkastíflu verður að mestu lokið um áramótin og Sauðárstífla og Desjárstífla verða fullkláraðar nú á haustmánuðum. Engu að síður verður hægt að byrja að fylla Hálslón í næstu viku. Sigurður Arnalds, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, segir að rennslið í Jökulsá á Dal hafi verið of mikið þessa vikuna en rennslið þurfi að vera í ákveðnu lágmarki svo hægt sé að loka fyrir það, því stefnt er að því að fylla lónið eins hægt og kostur er. Hálslón verður í heild sinni um 57 ferkílómetrar að stærð. Lónið verður langt og mjótt að lögun eða um 25 kílómetra langt og að meðaltali rúmlega tveggja kílómetra breitt. Yfirborð lónsins mun hækka hlutfallslega hvað mest nú í haust vegna þess hversu flatarmál lónsins er lítið næst stíflunni en þar er mesta dýpi lónsins, um 170 metrar. Lítið vatn mun renna í lónið yfir háveturinn en rennslið mun svo aukast aftur um leið og snjó leysir í vor. Framkvæmdum við Kárahnjúkastíflu lýkur að fullu í vor en þá verður lagður vegur yfir stífluna fyrir almenning. Þá er er nú þegar kominn vegur austanmegin við stífluna meðfram lónbotninum sem opinn almenningi. Ráðgert er að afhending orku úr Kárahnjúkavirkjun hefjist næsta vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×