Innlent

Vandi á höndum ef laun sjúkraliða ekki leiðrétt

Heilbrigðiskerfið lendir í miklum vanda ef laun yngri sjúkraliða verða ekki leiðrétt hið bráðasta, segir formaður Sjúkraliðafélagsins. Sífellt fleiri hverfi til annarra starfa sem krefjist minni menntunar, en gefi mun meira í aðra hönd.

Um átján hundruð sjúkraliðar eru við störf á landinu. Sjúkraliðanámið er þrjú ár á framhaldsskólastigi, en félagsliðanám, sem menntar fólk til starfa í félagsþjónustunni er tvö ár. Samt eru laun sjúkraliða fyrstu árin í starfi umtalsvert lægri en félagsliðanna. Nýútskrifaður sjúkraliði fær tæpar 165.000 krónur í mánaðarlaun, en 35 ára nýbyrjaður félagsliði fær rúmar 182.000 krónur. Eins og gefur að skilja er þetta heldur letjandi og hamlar endurnýjun í stéttinni, en meðalaldurinn er þegar orðinn nokkuð hár.

Kristín segir alla sem hún hafi rætt við, jafnt í fjármálaráðuneytinu sem aðra, vera sammála sér í því að þetta misræmi gangi ekki, en ekkert hafi gerst enn. Hún segir ábyrgðina ekki vera Landspítala-háskólasjúkrahúss, þótt sjúkraliðar sem þar starfi hafi sent frá sér yfirlýsingu í gær þar sem sagði að þeir væru að kikna undan álaginu, það yrði að fá fleiri til starfa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×