Fótbolti

Eiður Smári í hópnum

Byrjar væntanlega á bekknum í kvöld.
Byrjar væntanlega á bekknum í kvöld. Getty Images

Eiður Smári Guðjohnsen er í leikmannahópi Barcelona sem mætir Osasuna á heimavelli sínum Nou Camp í spænsku úrvalsdeildinni eftir skamma stund. Ronaldinho hefur hins vegar snúið aftur í hóp Evrópumeistaranna og því er afar ólíklegt að Eiður Smári fái tækifæri í byrjunarliðinu.

Bæði lið eru væntanlega staðráðin í að gera betur enn í fyrstu leikjum sínum á tímabilinu um þar síðustu helgi. Þá vann Barcelona reyndar sigur á Celta Vigo þar sem Eiður Smári skoraði sigurmarkið en liðið var þó allt annað en sannfærandi. Osasuna tapaði á heimavelli fyrir Getafe, 2-0, og mun væntanlega eiga erfitt uppdráttar á Nou Camp síðar í dag.

Í viðureign liðanna í Barcelona í fyrra unnu heimamenn öruggan 3-0 sigur en fróðlegt verður að sjá hvort Osasuna tekur upp á því að setja mann til höfuðs Xavi á miðju Barca. Það gerði Sevilla í árlegum leik Evrópumeistaranna fyrir skemmstu og vann 3-0 sigur. Þar var það einmitt Christian Poulsen, danski landsliðsmaðurinn sem fór svo illa með leikmenn íslenska landsliðsins á Laugardalsvellinum á miðvikudag, sem tók Xavi úr umferð.

Leikmannahópur Barcelona er firnasterkur fyrir leikinn og til marks um það má nefna að Gio van Bronckhorst og Juliano Beletti, sem voru jafnan fyrstu bakverðir liðsins á síðustu leiktíð, komast ekki í hóp.

Hópurinn fyrir leikinn á eftir lítur annars svona út: Valdés, Jorquera, Puyol, Márquez, Oleguer, Zambrotta, Thuram, Sylvinho, Edmílson, Xavi, Motta, Iniesta, Deco, Giuly, Messi, Ronaldinho, Eto''o og Eiður Smári Guðjohnsen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×