Innlent

Fundu búnað til að stela kortaupplýsingum

Lögreglan í Reykjavík rannsakar nú mál þar sem sérstökum búnaði var komið yfir kortasjálfsala við bensínstöð á höfuðborgarsvæðinu með það að markmiði að ná rafrænum upplýsingum af greiðslukortum. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkt mál kemur upp hér á landi.

Að sögn Harðar Jóhannessonar, yfirlögregluþjóns í Reykjavík, komst málið upp fyrir skömmu. Sem fyrr segir etta í fyrsta sinn sem slíkt mál kemur upp hér á landi en brot sem þessi eru þekkt í útlöndum. Hörður segir búnaðinn hannaðan þannig að reynt sé að ná kortanúmerum eða lykilorðum af kortunum en slíkur búnaður náðist af mönnum á leið út úr landi með Norrænu snemma árs. Búnaðurinn er flókinn og margs konar en þar getur verið um að ræða tæki sem hengt er yfir kortarauf eða hreinlega nýja framhlið á kortasjálfsala sem lögð er yfir þá upprunalegu.

Hörður segir að verið sé að kanna hvort búnaður sem þessi hafi verið settur upp víðar á landinu. Ekki er vitað hver eða hverjir komu búnaðinum upp en Hörður segir rannsókn málsins í fullum gangi og meðal annars kannað hvort þeir sem komu upp búnaðinum náðu einhverjum upplýsingum. Hörður biður almenning að vera á verði gagnvart slíkum búnaði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×