Fótbolti

Allir leikir Eiðs og félaga í beinni á Sýn

Eiður Smári verður mikið á skjánum á Sýn í vetur ef að líkum lætur
Eiður Smári verður mikið á skjánum á Sýn í vetur ef að líkum lætur NordicPhotos/GettyImages

Sjónvarpsstöðin Sýn hefur tryggt sér áframhaldandi sýningarrétt á leikjum úr spænska boltanum í vetur og gildir nýr samningur til þriggja ára. Í vetur verða því fleiri beinar útsendingar en nokkru sinni áður úr spænska boltanum og þar af verða allir leikir Eiðs Smára Guðjohnsen og félaga í Barcelona sýndir beint.

Sýn verður auk þess með beinar útsendingar frá bikarkeppninni á Spáni, sem og auðvitað meistaradeild Evrópu, svo landsmenn fá því ótakmörkuð tækifæri til að fylgjast með landsliðsfyrirliðanum Eiði Smára með Evrópumeisturunum.

Fyrsti leikurinn sem sýndur verður í spænska boltanum er á dagskrá strax á morgun klukkan 22, en þar er á ferðinni viðureign Valencia og Real Betis. Á mánudag verður á dagskrá fyrsti deildarleikur Barcelona þar sem liðið sækir Celta Vigo heim.

Börsungar hafa verið fyrirferðamiklir á Sýn undanfarna daga og í kvöld keppir liðið við landa sína í Sevilla um Ofurbikarinn í Mónakó. Sá leikur er að sjálfssögðu á dagskrá Sýnar og hófst sú útsending klukkan 18.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×