Innlent

Fleiri íslenskir friðargæsluliðar á leið til Sri Lanka

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, tilkynnti utanríkismálanefnd Alþingis í morgun, að Íslendingar myndu halda áfram friðargæslustörfum á Sri Lanka. Íslenskum friðargæsluliðum verður fjölgað úr fjórum til fimm í tíu.

Utanríkismálanefnd kom saman til fundar í morgun til að ræða framtíð norrænu friðargæslunnar á Sri Lanka. Valgerður Sverrisdóttir mun á fundinum skýra frá ákvörðun sinni um eflingu sveitanna í kjölfar brotthvarfs Dana, Finna og Svía.

Á mánudag hvatti norski utanríkisráðherrann Valgerði til þess að senda fleiri Íslendinga til Sri Lanka. Með það í huga mætti hún á fund utanríkismálanefndar í morgun.

Norðmenn og Íslendingar bera uppi norrænu friðargæsluna. Brotthvarf Íslendinga myndi setjaf riðrgæsluna í uppnám.

Átök á Sri Lanka hafa verið umfangsmeiri og harðari en undanfarin ár - og því hafa vaknað alvarlegar spurningar um friðargæsluna. Gæsluliðar eru óvopnaðir og þeim er ekki ætlað annað hlutverk en að ganga á milli, og forsenda þess er að báðir aðilar vilji halda friðinn. Sú forsenda er klárlega ekki fyrir hendi núna, miðað við átökin undanfarið, og því eru ótal jarðsprengjusvæði framundan fyrir norrænu friðargæsluna, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×