Innlent

Ekki vitað hvort Dell-fartölvur hér séu með gallaða rafhlöðu

MYND/EJS
Stærsti tölvuframleiðandi í heimi, Dell, hyggst innkalla ríflega fjórar milljónir fartölvurafhlaðna vegna hættu á að það kvikni í þeim. Ekki liggur fyrir hvort einhverjar fartölvur hér á landi eru með rafhlöðutegundina sem um ræðir.





Flestar rafhlaðnanna, eða þrjár milljónir, voru seldar í Bandaríkjunum en afgangurinn utan þeirra. Um er að ræða mestu innköllun á rafeindatækjum í sögu Bandaríkjanna. Fram kemur á fréttavef BBC að Dell sé kunnugt um sex tilvik þar sem slíkar rafhlöður ofhitnuðu og eldur kom upp, en þess má geta að Sony framleiðir rafhlöðurnar fyrir Dell. Um er að ræða liþíum-rafhlöður í Dell-tölvum sem sendar voru frá fyrirtækinu frá apríl 2004 til júlí í ár.





Greint er frá því á fréttavef Politkien að 30 þúsund tölvur verði innkallaðar þar í landi vegna vandans en hér á landi er umfang vandans ekki þekkt. EJS hefur umboð fyrir Dell hér á landi en þar á bæ hafa menn ekki fengið neinar kvartanir vegna elds í fartölvurafhlöðum.

Að sögn Gunnars Davíðs Gunnarssonar, innkaupafulltrúa hjá EJS, er verið að fara yfir það með Dell hvort og þá hversu margar fartölvur hér á landi hafi að geyma rafhlöðutegundirnar sem um ræðir. Þeirri yfirferð ljúki í dag og þá muni EJS senda frá sér yfirlýsingu um málið.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×