Innlent

Stoppaðir með handfarangur

Flugfarþegar sem millilenda í Bretlandi geta lent í því að vera stoppaðir með handfarangur sinn þar. Sérfræðingar um öryggismál segja að sennilega verði flugfarþegar að vera viðbúnir því að hertar reglur verði varanlegar.

Íslenskir farþegar finna helst fyrir áhrifum herts eftirlits ef þeir eru á leið til Bandaríkjanna en ekki má fara með neinn vökva í handfarangri þegar flogið er til Bandaríkjanna frá Íslandi. Þetta á til dæmis við um sjampó og tannkrem. Þetta á einnig við um vökva sem seldir eru innan flugstöðvarinnar. Leyfilegt er hins vegar að taka með sér með mjólk fyrir smábörn og nauðsynleg lyf.

Fyrir þá sem eru á leið annað en til Bandaríkjanna er allt óbreytt hér á landi og þeir farþegar geta ferðast með sinn handfarangur eins og áður.

Farþegar sem millilenda í Bretlandi geta hins vegar lent í vanda þar sem reglurnar hafa verið hertar þar til muna. Farþegar sem fljúga með flugvélum frá breskum flugvöllum þurfa að hafa allan handfarangur sinn í glærum poka og aðeins má hafa með sér ýmsan persónulegan varning sem nauðsynlegur er til ferðalagsins.

Þetta eru: - Peningaveski

- Vegabréf, flugmiðar eða aðar flugupplýsingar

- Lyfseðlar

- Lífsnauðsynleg lyf

- Gleraugu og sólgleraugu - Linsur

- Barnamatur og mjólk - Bleiur og annað sem nauðsynlegt er fyrir ungabörn

- Dömubindi og túrtappa - Bréfþurrkur

- Lykla

Þeir sem eru með annað en þessa hluti í handfarangri sínum þurfa að pakka þeim ofan í ferðtösku sína áður en haldið er frá Bretlandi.

Fréttavefur CNN hefur eftir sérfræðingum um öryggismál að sennilega verði flugfarþegar að vera viðbúnir því að þessar hertu reglur verði varanlegar.

Vegna hertrar öryggisgæslu er farþegum bent á að vera tímalega á ferðinni þar sem allt gengur hægar en venjulega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×