Innlent

Leikskólagjöld lækka í haust

Leikskólagjöld í Reykjavík snarlækka í haust og systkinaafsláttur verður hækkaður, rétt eins og meirihlutinn lofaði í kosningabaráttunni.

Borgarráð samþykkti í dag tillögu borgarstjóra um nýja gjaldskrá fyrir leikskóla Reykjavíkur. Samkvæmt henni lækka leikskólagjöld um tuttugu og fimm prósent og tekur sú breyting gildi 1. september næst komandi. Á sama tíma verður tekinn upp systkinaafsláttur. Þá verður aðeins greitt námsgjald fyrir eitt barn í hverri fjölskyldu.

Breytingin felur í sér að leikskólagjöld eins barns lækka um allt að 6.500 krónur á mánuði. Fyrir foreldra sem eru með fleiri börn getur sparnaðurinn numið tugum þúsunda.

Búist er við að þetta leiði til tæplega hundrað milljóna króna útgjalda fyrir borgarsjóð. Við það bætast fimmtán milljónir króna í hækkuðum framlögum til einkarekinna skóla. Meirihlutinn gerir ráð fyrir að útsvarstekjur verði hærri en áður var áætlað og því versni afkoma borgarsjóðs ekki við þetta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×