Sport

Fyrsti sigur Amelie Mauresmo á Wimbledon

Amelie Mauresmo heldur hér á sigurlaununum á Wimbledon
Amelie Mauresmo heldur hér á sigurlaununum á Wimbledon AFP

Franska tenniskonan Amelie Mauresmo vann í dag sinn fyrsta sigur á Wimbledon-mótinu þegar hún lagði Justine Henin-Hardenne í dramatískum úrslitaleik 2-6, 6-3 og 6-4 í London. Mauresmo hefur haft það orð á sér að standast ekki mikla pressu, en eftir skelfilega byrjun í dag náði hún að snúa leiknum sér í hag og sigra.

Mauresmo sigraði einmitt á opna ástralska mótinu í vetur eftir að hafa betur gegn Hardenne, sem þá þurfti að hætta keppni vegna meiðsla. Ekkert slíkt var uppi á teningnum í dag og Mauresmo kraup á kné og grét þegar glæsilegur sigur hennar var í höfn.

"Ég var orðin hundleið á því að heyra fólk tala um að ég hefði ekki taugar í að vinna stóra titla og því var ég staðráðin í að vinna í dag," sagði Mauresmo glöð í bragði eftir sigurinn, en hún er efst á styrkleikalista alþjóða tennissambandsins.

Henin-Hardenne var talin sigurstranglegri fyrir leikinn, en hún hafði ekki tapað í 17 leikjum í röð fyrir úrslitaleikinn í dag. Þetta var lengsta sigurganga konu á tennisvellinum á árinu, en áður hafði einmitt Mauresmo verið taplaus í 16 leikjum í röð. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×