Innlent

Munnlegur málflutningur í Baugsmálinu

MYND/365

Nú stendur yfir munnlegur málflutningur í Baugsmálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur. Sigurður Tómas Magnússon, settur saksóknari, hefur í morgun fært rök fyrir því að kaup Baugs á Vöruveltunni, sem átti 10-11 búðirnar, séu tæk til efnislegrar meðferðar fyrir dómi. Verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar segir tugi staðreyndavilla vera í ákæruskjálinu.

Ákæruvaldið sakar Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóra Baugs, um að hafa verið báðum megin borðs við sölu Vöruveltunnar til Baugs og leynt stjórn Baugs þeirri staðreynd að hann væri eigandi Vöruveltunnar. Hann hafi því notað aðstöðu sína til að stunda viðskiptahætti sem ekki standist lög mum innherjaviðskipti. Baugur keypti á sínum tíma 70 prósenta hlut í Vöruveltunni. Reiknað er með að málflutningur standi í Héraðsdómi til klukkan sex í dag.

Í byrjun málflutnings í morgun lagði Sigurður Tómas fram skjal um vinnu Deloitte og Touche endurskoðunarfyrirtækisins, sem hann segir að skýri að hluta hvers vegna rannsókn málsins dróst. En verjendur Baugsfjölskyldunnar hafa gagnrýnt hvað rannsókn málsins tók langan tíma. Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs, hóf málflutning sinn skömmu fyrir hádegi. Hann sagði ekki koma fram í ákærunni hvert brotið væri og tugir staðreyndavillna væru í ákæruskjalinu. Málflutningi verður fram haldið í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×