Flest bendir til að bandarískir landgönguliðar hafi í nóvember á síðasta ári myrt á þriðja tug íraskra borgara í hefndarskyni, þar á meðal mörg börn. Ódæðin eru sögð þau verstu sem bandaríska herliðið hefur gert sig sekt um í Írak frá því að ráðist var inn í landið.
Blóðbaðið átti sér stað í bænum Haditha, sem stendur við bakka Efrat-fljóts, en þar hefur verið róstusamt allt frá innrásinni vorið 2003. Kveikjan að því virðist hafa verið sprengjuárás þar sem herforingi úr bandaríska landgönguliðinu lét lífið í nóvember á síðasta ári.
Sjónarvottar segja að í kjölfarið hafi félagar mannsins farið hús úr húsi í bænum og skotið á allt sem fyrir varð. Þau fyrstu sem fengu heimsókn frá þeim hálfáttræður maður sem bundinn var við hjólastól og fjölskylda hans, þar á meðal fjögur barnabörn, það elsta átta ára, það yngsta tveggja mánaða. Ekkert þeirra komst lífs af.
Svipuð örlög biðu þeirra sem bjuggu í næsta húsi, hjóna með sjö börn sem öll voru undir fjórtán ára aldri. Þegar morðæðið var afstaðið lágu 24 í valnum. Tvennum sögum fer svo af því hvort handsprengjur hafi verið notaðar til að eyðileggja hús fólksins eða jafnvel sprengjum varpað á þau úr flugvélum, en til þess þarf skipun frá yfirmönnum.
Landgönguliðarnir gáfu svo falskar skýringar á drápunum, þeir sem féllu í Haditha voru ýmist sagðir hafa dáið í sjálfri vegsprengjuárásinni eða verið úr hópi uppreisnarmanna. Nefnd á vegum Bandaríkjahers vinnur að rannsókn málsins og mun hún skila niðurstöðum sínum á næstunni en fullvíst er talið að hún leggi til að þeir sem beri ábyrgð á ódæðunum verði sóttir til saka.
Mennirnir hafa allir verið leystir frá störfum á meðan ásakanirnar eru kannaðar til hlítar. Verði þær sannaðar er þarna um að ræða verstu illvirki bandarískra hermanna í Írak frá innrásinni, jafnvel enn verri en misþyrmingarnar í Abu Ghraib.