Áhersla verður lögð á skjótar, áreiðanlegar og skýrar upplýsingar á kosningavöku NFS, Stöðvar tvö og tengdra miðla sem fram fer að kvöldi kjördags. Kosningavakan hefst strax að loknum fréttum á laugardag og stendur þar til öll úrslit liggja fyrir.
Fréttastofa NFS verður með öfluga kosningavöku á laugardaginn sem send verður út á NFS og Stöð 2 í opinni dagskrá. Þá verður einnig samsending á Talstöðinni, FM 90,9 og fylgst með gangi mála á Bylgjunni.
Þór Jónssson, annar umsjónarmanna kosningavökunnar, segir starfsmenn NFS og Stöðvar 2 hafa gríðarlega reynslu af því að skipuleggja kosningasjónvarp og reynt hafi verið að straumlínulaga það á þann veg að hægt verði með enn skjótvirkari hætti að koma tölum og fréttum á framfæri. Út á það gangi kosningasjónvarp að þeirra mati.
Þá verður einnig hægt að nálgast nýjustu tölur úr kosningunum á vefmiðlinum Vísir.is. Þar verður einnig verður bein útsending frá kosningavökunni.
Segja má að um sé að ræða samfellda útsendingu á NFS frá því að kjörstaðir verða opnaðir um morguninn og fram á sunnudagskvöld en aðaláherslan er þó á kosningavökuna á laugardagskvöld.
Elín Sveinsdóttir, hinn umsjónarmaður kosningavökunnar, segir að sjálf kosningavakan hefjist strax að loknum fréttum klukkan 19.10 á laugardag og hún standi eins lengi og þurfa þyki, eða þar til síðustu tölur liggi fyrir.Þór bendir enn fremur á að í fyrsta sinn verði fylgst með öllum sveitarfélögum á landinu þar sem fram fari hlutbundin kosning. Þetta séu 60 sveitarfélög með þeim tveimur sem sjálfkjörið sé í. Nú verði kosningunum fylgt eftir alveg þar til úrslit liggi fyrir, hvenær sem það verði.