Innlent

Hugrenningar einstaklings en ekki skoðun flokksins

Formaður Sjálfstæðisflokksins vill ekki tjá sig um hótanir aðstoðarmanns forsætisráðherra um að slakt gengi Framsóknarflokks í komandi kosningum muni bitna á ríkisstjórnarsamstarfinu. Ummælin eru hugrenningar einstaklings og endurspegla ekki afstöðu forystu Framsóknarflokksins segir þingflokksformaður Framsóknar.

Ummæli Björns Inga Hrafnssonar aðstoðarmanns forsætisráðherra virðast ekki hafa þótt vel til fundin hjá samstarfsflokknum í ríkisstjórn. Þannig sagði Sigurður Kári Kristjánsson þingmaður flokksins í gær að ummælin yrði að skoða í ljósi þess að þar færi maður á barmi taugaáfalls vegna kosningabaráttunnar í borginni.

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins hefur hins vegar ekki viljað tjá sig um málið um helgina, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fréttastofu til þess að ná tali af honum.

Þá hefur ekki náðst í Halldór Ásgrímsson formann Framsóknarflokksins og að sögn upplýsingafulltrúa forsætisráðuneytisins verður ekki unnt að ná í hann á morgun heldur.

Það er því ekki ljóst hvort forsætisráðherra er sammála ummælum aðstoðarmanns síns frá því á föstudaginn. Þingflokksformaður Framsóknarflokksins er þó nokkuð viss um að ummælin endurspegli ekki almenna skoðun þingmanna Framsóknar. Þetta séu einfaldlega hugrenningar einstaklings.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×