Innlent

Stærsta ungmennamótið haldið hér

Alþjóðaleikar ungmenna verða haldnir í Reykjavík á næsta ári. Leikarnir eru fjölmennasta alþjóðlega íþróttamótið sem haldið er árlega. Ólympíuleikarnir sem við fáum að halda segir formaður undirbúningsnefndar.

Um fimmtán hundruð ungmenni og fylgilið þeirra eru væntanleg til Reykjavíkur í júní á næsta ári. Þá fara fram Alþjóðaleikar ungmenna þar sem keppt er í sjö íþróttagreinum, þeirra á meðal frjálsum íþróttum, fótbolta og golfi.

Fulltrúar Alþjóðaleika ungmenna voru í Reykjavík í dag og undirrituðu samninga við Reykjavíkurborg um að leikarnir færu fram hér á næsta ári. Þátttakendurnir koma víðs vegar að, frá um fjörutíu borgum í þrjátíu löndum.

Guðni Bergsson, formaður undirbúningsnefndar, segir þetta stærsta alþjóðlega fjölíþróttamótið sem haldið er árlega að því er hann best veit. Honum finnst sérstaklega ánægjulegt að þetta er mót fyrir unga fólkið, tólf til fimmtán ára ungmenni.

Guðni segir mikla undirbúningsvinnu framundan til að gera leikana sem best úr garði. Í þeim tilgangi verður leitað til fyrirtækja og einstaklinga til að leggja verkefninu lið. Eiður Smári Guðjohnsen knattspyrnukappi hefur þegar orðið við beiðni skipuleggjenda um að verða verndari leikanna.

Guðni er ekki í nokkrum vafa um að leikarnir næsta sumar verða stórviðburður og aðburður játar hann því að þetta gæti verið ólympíuleikar fyrir Íslendinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×