Sport

Vill ekki lesa um framtíð sína í blöðunum

Sam Allardyce vonast enn eftir að verða landsliðsþjálfari Englendinga
Sam Allardyce vonast enn eftir að verða landsliðsþjálfari Englendinga NordicPhotos/GettyImages

Stóri-Sam Allardyce segist enn vona að hann sé inni í myndinni sem næsti landsliðsþjálfari Englands í knattspyrnu, en segist vonast til þess að knattspyrnusambandið segi honum af eða á undir fjögur augu svo hann þurfi ekki að lesa um það í blöðunum áður en hann fær að vita það sjálfur.

"Í mínum huga tel ég að þeir sem hafa verið kallaðir í viðtal oftar en einu sinni eigi ennþá fræðilegan möguleika á að fá starfið, en ef ég er ekki inni í myndinni hjá sambandinu - vona ég sannarlega að ég heyri frá þeim fyrst svo ég þurfi ekki að komast að örlögum mínum í blöðunum," sagði Allardyce, sem hefur ekki farið leynt með áhuga sinn á að hreppa starfið. Hann vill þó lítið segja um þær fréttir sem tröllriðið hafa Enskum fjölmiðlum í dag um að Luiz Scolari verði sá sem tekur við landsliðinu af Sven-Göran Eriksson.

"Ég ætla að tjá mig sem minnst um það fyrr en ég heyri frá forráðamönnum knattspyrnusambandsins. Ég hef ekki séð neina formlega tilkynningu um að Scolari hafi verið ráðinn og þangað til það gerist tjái ég mig ekkert um það," sagði Allardyce.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×