Sport

Tiger með 2 högga forystu fyrir lokahringinn

Tiger Woods hefur tveggja högga forystu fyrir lokahringinn á Ford mótinu í golfi á Doral-vellinum á Miami í Flórída. Sýnt verður beint frá keppninni á Sýn í kvöld. Fjórir kylfingar voru jafnir fyrir keppni gærdagsins, Tiger Woods, Phil Mickelson, Scott Verplank og Camilo Villegas. Tiger Woods lék best þeirra í gær, lék á 4 undir pari og er samtals á 17 undir pari.

Bandaríkjamaðurinn Rich Beam og Svíinn Daniel Chopra eru jafnir í öðru sæti á 15 undir pari, tveimur á eftir Tiger Woods. Tilþrif dagsins átti Bandaríkjamaðurinn Zach Johnson. Högg á 17. braut fór beint ofan í og Johnson krækti í fugl og er á 11 höggum undir pari.

Þeir kylfingar sem voru jafnir Tiger fyrir spilamennskuna í gær áttu misjöfnu láni að fagna. Scott Verplank lék á 2 yfir pari og féll niður í 10-14. sæti. Phil Mickelson lék á pari og er 4 höggum á eftir Tiger. En Kolumbíumaðurinn, Camilo Villegas, lék best þeirra þriggja. Hann lék á einu undir pari og er því þremur á eftir Tiger Woods fyrir lokadaginn.

Sýnt verður beint frá Ford-mótinu á Sýn frá klukkan 20 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×