Innlent

Skipa nefnd til að fara yfir lög um kjaradóm

Ríkisstjórnin hefur skipað nefnd til að fara yfir lög um Kjaradóm og kjaranefnd. Er henni ætlað að gera tillögur um breytingar á þeim lögum í ljósi reynslunnar og ábendinga sem fram hafa komið um annmarka á þeim. Nefndinni er sérstaklega ætlað að skoða hvort ástæða sé til að breyta fyrirkomulagi launaákvarðana Kjaradóms og kjaranefndar.

Meðal annars verði hugað að þeim viðmiðunum og fyrirmælum sem þessum úrskurðaraðilum eru sett í lögunum fyrir launaákvarðanir sínar. Þá verði einnig farið yfir hverra laun skuli ákveðin af sérstökum úrskurðaraðilum og hvernig skipan þeirra skuli háttað. Forsætisráðherra hefur skipað Jón Sigurðsson fyrrverandi ráðherra formann nefndarinnar. Aðrir í nefndinni eru Páll Þórhallsson lögfræðingur í forsætisráðuneytinu, Aðalsteinn Árni Baldursson samkvæmt tilnefningu Frjálslynda flokksins, Svanfríður I. Jónasdóttir samkvæmt tilnefningu Samfylkingarinnar, Svanhildur Kaaber samkvæmt tilnefningu Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og Þórunn Guðmundsdóttir og Gunnar Björnsson samkvæmt tilnefningu Sjálfstæðisflokks.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×