Innlent

Krónan helsta útflutningsvaran

Kristján L. Möller í ræðustól á Alþingi.
Kristján L. Möller í ræðustól á Alþingi. MYND/GVA

Krónan er orðin helsta útflutningsvara Íslands, segir Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, sem óttast að frekari vaxtahækkanir Seðlabankans á morgun geri stöðu útflutningsatvinnugreina enn erfiðari en hún er þegar orðin.

Sérfræðingar á markaði gera allir ráð fyrir að bankastjórn Seðlabankans hækki stýrivexti sína á morgun. Þá er fyrsti formlegi vaxtaákvörðunardagur bankans eftir að fyrirkomulagi vaxtaákvarðana var breytt í síðasta mánuði.

Greiningardeildirnar spá allar vaxtahækkun. Greiningardeildir Íslandsbanka og Landsbanka spá tuttugu og fimm punkta hækkun en greiningardeild KB banka spáir tuttugu og fimm til fimmtíu punkta hækkun. Vextir Seðlabankans eru tíu og hálft prósent en gætu samkvæmt spánum hækkað í allt að ellefu prósent.

Hátt gengi krónunnar hefur valdið útflutningsgreinum vandræðum og vaxtamunur hefur leitt til mikilla kaupa erlendra aðila á skuldabréfum í íslenskum krónum.

Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, lýsir miklum áhyggjum af vaxtahækkun á morgun vegna styrkingar krónunnar. Hann segist óttast áhrifin á útflutningsatvinnugreinar og einkum sjávarútveginn, helstu atvinnugrein landsbyggðarinnar. Hann segir merkilegt að á síðasta ári hafi verið selt svo mikið af skuldabréfum til útlanda að í raun sé krónan orðin helsta útflutningsvara Íslendinga.

Kristján segir nauðsynlegt að gengi krónunnar lækki en óttast að frekari vaxtahækkun hafi þveröfug áhrif. Þannig geti skuldabréfakaup útlendinga aukist og gengið hækkað enn frekar. Þannig sé grafið undan sjávarútvegi og þar með landsbyggðinni enda sé sjávarútvegur helsta atvinnugrein landsbyggðarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×