Sport

Breskir fjölmiðlar ættu að skammast sín

Glenn Hoddle vandar bresku pressunni ekki kveðjurnar
Glenn Hoddle vandar bresku pressunni ekki kveðjurnar NordicPhotos/GettyImages

Fyrrum knattspyrnuhetjan og núverandi knattspyrnustjóri Wolves, Glenn Hoddle, segir að breskir fjölmiðlar ættu að skammast sín fyrir meðferð sína á Sven-Göran Eriksson, landsliðsþjálfara Englendinga. Eriksson hefur verið harðlega gagnrýndur af bresku pressunni undanfarið, en því er ekki að neita að hart hefur verið vegið að honum.

"Leikurinn sem ég elska hefur sannarlega verið dreginn ofan í ræsið að undanförnu," sagði Hoddle í samtali við Sky. "Mér finnst ekki að fólk ætti að skella skuldinni á Eriksson varðandi þann skrípaleik sem hefur verið í gangi undanfarna daga, heldur ættu fjölmiðlamenn í landinu að skammast sín og líta í eigin barm," sagði Hoddle, sem sjálfur hefur mikla reynslu af að vera á milli tannanna á bresku pressunni eftir að hafa stýrt enska landsliðinu á sínum tíma.

"Þetta hefur allt saman hent mig áður. Hlutir sem ég sagði aldrei voru hafðir eftir mér í blöðunum, hlutir sem voru bara hrein og klár lygi. Ég held samt að knattspyrnusambandið hafi tamið sér öllu meiri þolinmæði í dag en það hafði þegar við Terry Venables stýrðum liðinu á sínum tíma, en það breytir því ekki að fjölmiðlar eru í herferð til að láta Eriksson líta illa út og ljúga uppá hann rétt fyrir HM og það er bara hneyksli."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×