Sport

Rooney og Ferguson misstu stjórn á sér

Rooney og Ryan Giggs eru alveg gáttaðir á Bennett í leiknum í dag.
Rooney og Ryan Giggs eru alveg gáttaðir á Bennett í leiknum í dag.

Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United og sóknarmaður liðsins, Wayne Rooney misstu stjórn á skapi sínu í hálfleik í 3-1 tapleiknum gegn Man City í ensku úrvalsdeildinni í dag. Tvímenningarnir helltu úr skálum reiði sinnar á leið til búningsherbergja yfir dómarann Steve Bennett sem átti slæman dag með flautuna.

Rooney og Ferguson gætu nú átt yfir höfði sér rannsókn og hugsanlega refsingu ef Bennet færir umrætt atvik í leikskýrslu sína sem hann að öllum líkindum mun gera. Þá er Rooney sagður hafa valdið skemmdum á hurð á búningsherbergi Man Utd fyrir framan fjölda vitna.

Leikmenn Man Utd og fleiri í herbúðum þeirra voru langt frá því að vera kátir með frammistöðu Bennett dómara sem rak Christiano Ronaldo af velli á 66. mínútu þegar hann framdi tveggja fóta tæklingu á Andy Cole. Þá vilja þeir meina að dæma hefði átt rangstöðu á Man City þegar Trevor Sinclair skoraði fyrsta marki heimamanna. Þá voru þeir langt frá því að vera sáttir við gula spjaldið sem Rooney fékk í fyrri hálfleik fyrir mótmæli.

Bennett átti upphaflega ekki að dæma leikinn en tók hann að sér þar sem Mark Halsey dómari sem átti upphaflega að flauta leikinn meiddist í vikunni. Man Utd er nú 13 stigum á eftir toppliði Chelsea og möguleikar á meistaratitlinum dvína hraðar og hraðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×