Sport

Get alltaf treyst á hinn ljóshærða Maradona

Eiður Smári fær ekki amalegt hrós frá stjóra sínum
Eiður Smári fær ekki amalegt hrós frá stjóra sínum NordicPhotos/GettyImages

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, bíður þess nú að fá leyfi frá konu sinni til að fara á leik Arsenal og Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Nokkur meiðsli eru í liði hans um þessar mundir, en þó þeir Michael Essien og Hernan Crespo séu báðir meiddir - segist stjórinn ekki hafa áhyggjur því hann geti alltaf treyst á "Hinn ljóshærða Maradona" og á þar við Eið Smára Guðjohnsen.

"Það væri auðvitað gott að fá fleiri leikmenn til okkar, því við höfum misst menn í burtu, menn eru að fara í Afríkukeppnina og svo eru nokkrir menn meiddir. Ef við styrkjum liðið hinsvegar ekki, getum við alveg ráðið við það. Ég sagði við Eið Smára að hann hefði verið eins og ljóshærður Maradona í leiknum gegn West Ham, Manchester City og Birmingham. Sendingar hans voru frábærar og svo getum við einnig notað þennan ljóshærða Maradona í sókninni ef því er að skipta," sagði Mourinho, en þetta eru sannarlega ekki dónaleg ummæli sem landsliðsfyrirliðinn fær frá stjóra sínum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×