Enski boltinn

Mourinho: Varnarleikurinn veldur áhyggjum

Jose Mourinho hefur réttilega áhyggjur af varnarleik Chelsea. Hér er hann með landa sínum Ricardo Carvalho.
Jose Mourinho hefur réttilega áhyggjur af varnarleik Chelsea. Hér er hann með landa sínum Ricardo Carvalho. MYND/Getty

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, segir að hann hafi áhyggjur af varnarleik Chelsea sem hefur fengið á sig sex mörk í síðustu þremur deildarleikjum. Hann segir að fjarvera Petr Cech markvarðar og fyrirliðans John Terry sé liðinu dýrkeypt.

„Við seldum William Gallas og Robert Huth í sumar og getum því ekki bjargað málunum sem skyldi. Þess vegna eigum við í vandræðum. Öllu jöfnu ætti Chelsea að halda hreinu þrjá leiki í röð."

Terry hefur misst af síðustu tveimur deildarleikjum sem og leik Chelsea og Newcastle í deildarbikarnum. Hann á við bakmeiðsli að stríða og gæti þurft að gangast undir aðgerð vegna þeirra.

Ricardo Carvalho og Paulo Ferreira voru miðverðir Chelsea gegn Reading í fyrradag þar sem sjálfsmark Michael Essien kostaði liðið sigurinn.

„Eins og stendur þurfum við að skora þrjú mörk til að vinna leiki. Stundum tekst okkur það, stundum ekki. Það er gífurlega erfitt að missa bæði Petr og John á sama tíma, sérstaklega þar sem liðið er ekki með fleiri miðverði í hópnum."

Manchester United er með fjögurra stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir 3-0 sannfærandi sigur á Wigan.

William Gallas var í sumar seldur til erkifjendanna í Arsenal eftir að hann gerði forráðamönnum liðsins ljóst að hann væri ekki ánægður með það hlutverk sem hann hefði leikið með liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×