Hljómsveitin fornfræga, The Stooges, ætlar að gefa út sína fyrstu plötu í 33 ár, þann 20. mars á næsta ári. Mun hún fylgja henni eftir með tónleikaferð um heiminn.
Nýja platan nefnist The Weirdness og er Steve Albini upptökustjóri. Hann á m.a. að baki plötuna In Utero með Nirvana og Surfer Rose með Pixies.
Síðasta plata The Stooges, Raw Power, kom út árið 1973 þegar forsprakkinn Iggy Pop var djúpt sokkinn í heróínfíkn sína. Með hjálp David Bowie hóf hann vel heppnaðan sólóferil um miðjan áratuginn og gaf út lög á borð við Lust for Life og The Passenger.
The Stooges héldu í sína fyrstu tónleikaferð í þrjátíu ár á síðasta ári. Meðal annars heimsóttu þeir félagar Ísland og héldu tónleika í Hafnarhúsinu.