Innlent

Styttri bið og fleiri komast að

Björn Ingi Hrafnsson formaður íþrótta- og tómstundaráðs
Björn Ingi Hrafnsson formaður íþrótta- og tómstundaráðs

Staðan á frístundaheimilum Reykjavíkurborgar er mun betri nú en á sama tíma í fyrra þegar um 150 börn voru á biðlista eftir vistun að sögn Björn Inga Hrafnssonar, formanns Íþrótta- og tómstundaráðs. Dofri Hermannsson, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, gagnrýndi framgöngu meirihluta borgarstjórnar í málinu í Fréttablaðinu í gær.

Í dag eru 68 börn á biðlista sem mun vonandi styttast í vikunni þar sem tekist hafi að ráða í nokkrar stöður á síðustu dögum, að sögn Björns Inga.

„Auk þess er mun meiri aðsókn núna í vistun. Þannig erum við bæði að koma fleiri börnum að og erum með styttri biðlista. En engu að síður teljum við of mikið að hafa eitt einasta barn á biðlista.“

Borgaryfirvöld eru með margs konar aðgerðir í gangi, fullyrðir Björn Ingi, og er nú í gangi þjónustukönnun hjá foreldrum allra barna sem eru á biðlista. „Við erum meðal annars að kanna hvort einhver þeirra þurfi bara hluta úr vistun svo hægt sé að koma fleirum fyrir inni á sama degi. Einnig erum við að upplýsa fólk um stöðuna.“

Hingað til hefur sú regla gilt varðandi umsókn um vistun að fyrstir koma fyrstir fá. Nú hefur því verið breytt á þann veg að yngstu börnin og þau sem hafa sérþarfir fá forgang, að sögn Björns Inga. „Það leysir vanda ákveðinna barna. Og miðað við þá þróun sem er núna virðist mér að við getum klárað þetta á allra næstu vikum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×