Innlent

Íslendingur liggur á gjörgæslu eftir líkamsárás í Lundúnum

Íslendingur á fertugsaldri liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi í Lundúnum eftir að ráðist var á hann í gærmorgun.

Að sögn lögreglunnar í Lundúnum var maðurinn á ferð við Arnold Circus í austurhluta borgarinnar þegar þrír karlmenn réðust á hann um klukkan hálfsjö í gærmorgun. Ekki er ljóst hvort vopn voru notuð í árásinni en hvorki var um skot-árás né hnífstungu að ræða.

Árásarmennirnir flúðu af vettvangi og leitar lögregla þeirra. Íslendingurinn var fluttur á nálægt sjúkrahús og liggur þar á gjörgæsludeild.

Að sögn Sigurðar Arnarsonar, sendiráðsprests í Lundúnum, bíða aðstandendur mannsins fregna af líðan hans, en hún er óstöðug. Ástæður að baki árásinni eru alls ókunnar.

„Það er leitt að segja það en Lundúnir eru sextán milljóna manna borg og fregnir af svona árásum eru ekki óalgengar,“ segir Sigurður. „Það er hræðilegt þegar svona kemur fyrir og við vonum öll að hann nái sér.“

Ekki er hægt að greina frá nafni mannsins að svo stöddu, en hann býr og starfar í Lundúnum.Gatan þar sem ráðist var á manninn, Arnold Circus, er í austurhluta borgarinnar, um tvo kílómetra norðan við Tower of London.

Yfir þrjú þúsund Íslendingar búa á Bretlandseyjum, þar af um þúsund í Lundúnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×