Innlent

Lengd viðvera fatlaðra barna

Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra
Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra

Ríki og sveitarfélög munu skipta með sér kostnaði við lengda viðveru allt að 370 fatlaðra grunnskólabarna í 5. til 10. bekk frá 1. janúar 2007. Ríkisstjórnin samþykkti í gær að félagsmálaráðuneytið gangi til viðræðna við Samband íslenskra sveitarfélaga um útfærslu á greiðsluþátttöku ríkisins til bráðabirgða í tvö ár. Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra ætlar sér skamman tíma til að ganga frá því.

Lengi hefur verið unnið að framtíðarlausn varðandi hver greiði kostnað vegna þjónustu við þennan aldurshóp eftir að skóladegi lýkur. Er þar átt við dægradvöl og aðstoð við heimanám sem veitt er grunnskólabörnum eftir að skólastarfi lýkur klukkan 13 og stendur fram til klukkan 17. Sveitarfélögin veita yngri grunnskólabörnum þessa þjónustu, bæði fötluðum og ófötluðum.

Starfshópur sem fjallaði um málið og skilaði skýrslu í haust lagði til að gert yrði sérstakt samkomulag milli félagsmálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um skiptingu kostnaðarins og reiknað er með að hlutur ríkissjóðs geti orðið 60 milljónir króna á ári í tvö ár.

Lagt er til að lög um málefni fatlaðra verði endurskoðuð til að kveða skýrt á um hlutverk og ábyrgð ríkis og sveitarfélaga varðandi lengri viðveru fatlaðra grunnskólabarna. Í dag hvílir lagaskylda hvorki á ríki né sveitarfélögum um að bjóða þessa þjónustu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×