Innlent

Sex af sjö í Sjálfstæðisflokki

Tveir af þremur bæjarfulltrúum Vestmannaeyjalistans eru skráðir í Sjálfstæðisflokkinn, sem er einn í meirihluta í bæjarstjórninni með fjóra af sjö bæjarfulltrúum.

Sex af sjö bæjarfulltrúum í Vestmannaeyjum eru því skráðir í Sjálfstæðisflokkinn þótt flokkurinn hafi ekki nema fjóra fulltrúa í bæjarstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn, Frjálslyndi flokkurinn og Vestmannaeyjalistinn buðu fram í sveitarstjórnarkosningunum í vor en að sögn bæjarfulltrúa Vestmannaeyjalistans er ekki um að ræða sameiginlegt framboð margra stjórnmálaflokka, þótt Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn og Vinstrihreyfingin - grænt framboð hafi ekki boðið sérstaklega fram í kosningunum.

Hjörtur Kristjánsson og Páll Scheving Ingvarsson, sem sitja í bæjarstjórn Vestmannaeyja fyrir hönd Vestmannaeyjalistans, staðfestu við Fréttablaðið í gær að þeir væru skráðir í Sjálfstæðisflokkinn. „Ég hef ekki enn þá verið skráður úr flokknum. Ég tók þátt í prófkjörinu fyrir skömmu til þess að veita góðum mönnum brautargengi,“ sagði Páll Scheving.

Hjörtur sagðist sömuleiðis vera skráður í flokkinn. „Ég er búinn að vera skráður í flokkinn að ég held síðan ég var unglingur, eftir að ég kaus í einhverju prófkjöri. Það hefur gengið afar erfiðlega að fá sig lausan úr flokknum. En það hlýtur að koma að því.“

Í bæjarstjórn Vestmannaeyja sitja Elliði Vignisson, sem jafnframt er bæjarstjóri, Páley Borgþórsdóttir, Páll Marvin Jónsson og Gunnlaugur Grettisson fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins. Fyrir hönd Vestmannaeyjalistans situr, auk Hjartar og Páls, Kristín Jóhannsdóttir.

Í 34. grein skipulagsreglna Sjálfstæðisflokksins kemur fram að „gegni maður trúnaðarstörfum fyrir annan stjórnmálaflokk geti maður ekki verið félagi í sjálfstæðisfélagi“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×