Innlent

Runólfur Ágústsson segir upp sem rektor á Bifröst

Runólfur Ágústsson eftir fundinn umdeilda á miðvikudag.
Runólfur Ágústsson eftir fundinn umdeilda á miðvikudag. MYND/NFS

Runólfur Ágústsson, rektor Háskólans á Bifröst, sagði í gær starfi sínu lausu frá og með 1. desember næstkomandi. Guðjón Auðunsson, formaður háskólastjórnar, segir uppsögnina alfarið vera að frumkvæði Runólfs.

Heimildir Fréttablaðsins herma þó að mikill þrýstingur hafi skapast frá starfsmönnum og stjórn skólans gagnvart Runólfi að segja upp eftir að fundurinn umdeildi var haldinn á miðvikudag.

Guðjón segir ákvörðunina fyrst og fremst hafa verið tekna með hagsmuni Bifrastar að leiðarljósi. „Það er ekki hægt að láta skólann og starfsemi þar líða fyrir átök innan veggja skólans um rektor. Mér finnst Runólfur maður að meiri að hafa tekið þessa ákvörðun."

Bryndís Hlöðversdóttir aðstoðarrektor tekur við starfinu tímabundið hinn 1. desember á meðan ákvörðun um varanlegan eftirmann verður tekin.

Guðjón segir að eðlilega séu skiptar skoðanir um þann fund sem Runólfur hélt með háskólasamfélaginu á miðvikudagskvöld. „Ég ætla bara að halda minni skoðun á því fyrir mig. En vonandi skapar þetta ró. Menn væru að fórna miklu til einskis ef svo yrði ekki."

Uppsögnin kemur í kjölfar mikilla deilna innan háskólasamfélagsins á Bifröst eftir að hópur fyrrverandi og núverandi nemenda kærðu Runólf til siðanefndar skólans vegna embættisafglapa, ósiðlegrar hegðunar og óeðlilegs samneytis við nemendur.

Runólfur boðaði fund með starfsmönnum og nemendum með skömmum fyrirvara á miðvikudag þar sem hann svaraði þeim alvarlegu ásökunum sem bornar höfðu verið á hann. Undir lok fundarins lét hann fundarmenn kjósa um hvort hann væri hæfur til að sinna sínu starfi áfram. Í yfirlýsingu sem hann gaf út eftir fundinn sagði hann niðurstöðu fundarins hafa verið þá að hann hefði umboð til að sitja áfram. Því kom nokkuð á óvart þegar hann ákvað að segja starfi sínu lausu innan við sólarhring síðar.

Runólfur Ágústsson vildi ekki tjá sig um málið þegar leitast var eftir því í gær. Í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í gær kom fram að sá ófriður sem ríkt hefði í skólahaldi Bifrastar hefði truflað jafnt nemendur sem starfsfólk og auk þess valdið skólanum sjálfum skaða. Í yfirlýsingunni segist Runólfur hafa „undanfarin sjö ár gefið þessum skóla allt mitt líf, allan minn tíma og alla mína orku. Einkalíf mitt get ég hins vegar ekki gefið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×