Þrjátíu gefa kost á sér í sæti á listum Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Reykjavíkurkjördæmunum og Suðvesturkjördæmi.
Frestur til þátttöku rann út um síðustu helgi.
VG efnir til sameiginlegs forvals við val á framboðslista í kjördæmunum þremur og hefur sú leið ekki verið farin fyrr.
Fer forvalið fram 2. desember og hafa félagar í VG kosningarétt. Kjörskrá verður lokað 25. nóvember.
VG á einn þingmann í hvoru Reykjavíkurkjördæmanna en hlaut ekki kosningu í Suðvesturkjördæmi í síðustu kosningum.
Báðir þingmenn flokksins í Reykjavík, Kolbrún Halldórsdóttir og Ögmundur Jónasson, gefa kost á sér áfram, sem og Álfheiður Ingadóttir varaþingmaður. Þá eru Árni Þór Sigurðsson borgarfulltrúi og Katrín Jakobsdóttir, varaformaður flokksins, meðal þátttakenda í forvalinu.