Innlent

Vilja vernda aldargömul hús gegn niðurrifi

Laugavegur 41 Var byggt 1898. Eigandi frá því í febrúar á þessu ári er Þorsteinn Steingrímsson.
Laugavegur 41 Var byggt 1898. Eigandi frá því í febrúar á þessu ári er Þorsteinn Steingrímsson. MYND/Stefán

Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi Frjálslynda flokksins, er andvígur því að tvö 108 og 98 ára gömul hús við Laugaveg verði rifin til að rýma fyrir nýjum byggingum.

Húsin tvö er á svokölluðum Frakkastígsreit og eru á meðal þeirra húsa á reitnum sem títt hafa gengið kaupum og sölum á þessum reit. Núverandi eigandi er athafnamaðurinn Þorsteinn Steingrímsson sem á fleiri hús á Frakkastígsreitnum. Frjálsyndi flokkurinn segir hugsanlegt niðurrif húsanna vera umhverfisslys og hvetur borgarbúa til að gera athugasemdir til skipulagsfulltrúa.

Á fundi skipulagsráðs á miðvikudag var samþykkt að auglýsa tillögu sem gerir ráð fyrir niðurrifi húsanna númer 33 og 35 við Laugaveg sem eru í eigu ÁF-húsa ehf. Þessi hús eru byggð 1935 og 1921. Leggst Ólafur einnig gegn niðurrifi þeirra enda séu öll húsin hluti gamallar götumyndar Laugavegarins.

Ekki náðist í Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, formann skipulagsráðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×