Innlent

Aldrei heyrt um 90 milljarða

Sigurður snævarr. Kannast ekki við verðmat upp á 90 milljarða.
Sigurður snævarr. Kannast ekki við verðmat upp á 90 milljarða.

Sigurður Snævarr borgarhagfræðingur segir hvorki borgaryfirvöld í Reykjavík né viðskiptaráðgjöf Par X IBM kannast við verðmætamat á Landsvirkjun upp á 91,2 milljarða króna. Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn, segir borgarstjórn hafa samþykkt að selja Landsvirkjun á allt að fimmtán milljarða lægra verði en verðmat hefði gefið tilefni til.

Sigurður segir þetta rangt hjá Degi og ekki í takt við það mat sem stuðst hefði verið við þegar borgaryfirvöld áttu í samningum við íslenska ríkið um verð á Landsvirkjun. „Ef Landsvirkjun hefur verið metin á rúmlega 90 milljarða króna í tíð R-listans, þá spyr maður sig hvers vegna ákveðið var að selja ekki hlutinn. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fyrrverandi borgarstjóri, segir Landsvirkjun hafa verið metna á 56 milljarða, þegar slitnaði upp úr viðræðunum, og ástæðan fyrir því að hún vitnar til þeirrar tölu er sú að það er rétt tala,“ segir Sigurður.

Sigurður segir ýmis verð hafa verið reiknuð út á grundvelli breytilegra forsenda, þegar unnið var að verðmati á Landsvirkjun, en ekki sé hægt að bera saman óskyld verðmöt þegar horft sé til heildarverðmats á fyrirtækinu. „Ég get mér þess til, þó ég kannist ekki við þetta verðmat sem vitnað hefur verið til, að stuðst sé við mat sem ekki byggi á réttum forsendum og sé því ekki samanburðarhæft við verðið sem hluturinn seldist á.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×