Innlent

Hof ásatrúarfólks í Leynimýri

Hof Ásatrúarfélagsins mun rísa í Leynimýrinni og er ráðgert að fyrsta skóflustungan verði tekin 1. desember.
Hof Ásatrúarfélagsins mun rísa í Leynimýrinni og er ráðgert að fyrsta skóflustungan verði tekin 1. desember. MYND/E.ól

Borgarráð Reykjavíkurborgar samþykkti að úthluta Ásatrúarfélaginu lóð undir hof í Leynimýri á fundi sínum á fimmtudaginn. Var skipulagssviði falið að gera tillögur að staðsetningu lóðarinnar.

Egill Baldursson, lögsögumaður Ásatrúarfélagsins, segir þetta frábærar fréttir. „Stefnt er að því að taka fyrstu skóflustungu að hofinu 1. desember næstkomandi. Þetta verður bæði hof og félagsheimili. Öll blót munu fara þarna fram á helgistað félagsins og einnig fundir og þess háttar.“

Fjögur höfuðblót eru haldin á hverju ári fyrir hvern ársfjórðung auk sérstaks þorrablóts. „Allt að 170 manns taka þátt í blótunum hjá okkur og eru allir velkomnir. Sérstaklega góð þátttaka er á barnablótinu sem haldið er sumardaginn fyrsta ár hvert.“

Rúmlega eitt þúsund manns eru í Ásatrúarfélaginu og segir Egill mikla uppsveiflu í félaginu um þessar mundir. „Það eru spennandi tímar fram undan.“

Borgarráð samþykkti einnig að gefa Trúfélagi rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar á Íslandi fyrirheit um úthlutun lóðar fyrir kirkjubyggingu á lóð á Nýlendureit, á milli Nýlendugötu og Mýrargötu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×