Innlent

Heilbrigðisráðuneytið hunsar tilmæli

Sigurður Þórðarson
Sigurður Þórðarson

Ríkisendurskoðun gerði stjórnsýsluúttekt á þjónustu við aldraða árið 2005 þar sem meðal annars var mælst til þess að ríkið gerði þjónustusamninga við dvalar- og hjúkrunarheimili. Ekkert hefur verið aðhafst í þeim málum enn. Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, segir slíka þjónustusamninga ekki á döfinni.

„Ég get ekki svarað fyrir það hvers vegna þetta hefur ekki verið gert,“ segir Sigurður Þórðarson ríkisendurskoðandi. „Við höfum farið í þessi mál sem varðar þjónustu við aldraða. Í stjórnsýsluúttekt okkar síðan í fyrra kemur fram að við teljum stjórnvöld þurfa að setja fram kröfur um lágmarksþjónustu öldrunarheimila sem rekin eru fyrir opinber framlög.“

Hann segir að slíkt veitti heimilunum aukið aðhald og stuðlaði að auknu jafnrétti fyrir þá sem þar dvelja, auk þess sem eðlilegt megi telja að ríkið viti hvaða þjónustu það greiðir fyrir.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær segir Siv Friðleifsdóttir ekki á döfinni að gera þjónustusamninga við dvalar- og hjúkrunarheimili. Bæði hafi landlæknir eftirlit með því að þjónustan sem greitt er fyrir sé veitt og einnig sé í gildi gæðakerfi sem greitt er eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×