Innlent

Mýrin eykur sölu á sviðum

Bjarni með svið á BSÍ Bjarni segir sviðasölu hafa margfaldast.
Bjarni með svið á BSÍ Bjarni segir sviðasölu hafa margfaldast. MYND/Daníel

„Eftir að sýningar á Mýrinni hófust í kvikmyndahúsum hefur sviðasala hjá okkur margfaldast,“ segir Bjarni Geir Alfreðsson, eigandi veitingasölunnar Fljótt og gott á BSÍ við Vatnsmýrarveg. Erlendur Sveinsson, lögreglumaður og aðalsöguhetja Mýrarinnar, fer oft á BSÍ og kaupir sér svið í myndinni.

Bjarni Geir, sem oftast er kallaður Bjarni snæðingur, leikur meðal annars kokkinn á BSÍ í myndinni. „Við finnum sérstaklega fyrir aukinni sölu á sviðum í lúgunni en einnig inni í veitingasal. Mér finnst ánægjulegt að þessi alíslenski matur sé kominn í tísku hjá ungum sem öldnum.“

Svið hafa verið á matseðli veitingastofunnar á BSÍ síðan stöðin var opnuð. Bjarni, sem tók við rekstri veitingastofunnar á BSÍ fyrir ellefu árum, segir sviðin ekki hafa verið sérstaklega vinsæl hingað til en þó hafa alltaf verið nokkrir sem hafa nýtt þá þjónustu að geta keypt þau í bílalúgunni. „Það hefur verið venja fyrir því hér á BSÍ að vera með svið á matseðlinum og ég hef reynt allt til þess að gera þau vinsæl. Þessar óvæntu vinsældir nú eru því alveg kærkomnar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×