Ungir frjálshyggjumenn stóðu fyrir bjórsölu við Héraðsdóm Reykjavíkur á Lækjartorgi í gær.
Hlynur Jónsson, formaður Ungra frjálshyggjumanna, sagði í samtali við Fréttablaðið áður en salan hófst að tilgangurinn væri að mótmæla einokun ríkisins á áfengissölu hér á landi. Til stæði að selja hverjum þeim sem náð hefði 20 ára áfengiskaupaaldri bjórinn. Félagið vildi með þessu hvetja alþingismenn til að afnema einokun ríkisins á sölu áfengis.
Hlynur reiknaði þó ekki með því að salan fengi að standa lengi yfir enda lögreglan líkleg til að vera mætt á staðinn til að stöðva hana í startholunum. Það reyndist enda raunin og salan var stöðvuð eftir sölu á fyrsta bjórnum.
Hlynur var handtekinn og var að eigin sögn látinn dúsa óþarflega lengi í fangaklefa. Honum var sleppt síðdegis í gær að loknum yfirheyrslum. Hann var samt sem áður ánægður með uppátækið. „Þetta gekk mjög vel. Við seldum einn bjór, þó að salan hafi einungis staðið yfir í eina sekúndu.“